Samtök samkynhneigðra í Bretlandi mæla eindregið með því að þeir sem styðji málstað þeirra sniðgangi Heinz-vörur í kjölfar þess að fyrirtækið tók úr umferð sjónvarpsauglýsingu um Delimajónes sem sýndi tvo karlmenn kyssast.

Auglýsingasiðanefnd í Bretlandi bárust yfir 200 kvartanir vegna auglýsingarinnar en í kvörtununum var sagt að auglýsingarnar væru óviðeigandi, særandi og að börn ættu ekki að sjá svona lagað.

Heinz ákvað að taka auglýsinguna úr umferð tveimur vikum eftir að hún fór fyrst í loftið og bar fyrir sig að fyrirtækið virti skoðanir neytenda, að því er fram kemur í frétt Brand Republic.

Samstök samkynhneigðra sögðust vera forviða yfir því að auglýsingin skyldi vera dregin til baka með þessum hætti og sögðu að Heinz myndi líklega ekki bregðast svona við ef verið væri að mótmæla svertingjum í auglýsingum fyrirtækisins.

Auglýsingin sýnir fjölskyldu undirbúa sig fyrir hið daglega amstur að morgni. Ungur drengur hleypur inn í eldhúsið og ávarpar móður sína: „Má ég fá samloku, mamma?“

Hörkulegur karlmaður, klæddur í einkennisbúning New York-samlokugerðarmanna, svarar og segir að það sé lítið mál að verða við því. Hann er sem sagt mamman í auglýsingunni.

Svo kemur dóttirin inn og fær einnig samloku. Áður en fjölskyldufaðirinn heldur til vinnu, minnir „mamman“ hann á að smella á „hana“ kveðjukossi. Og karlmennirnir tveir kyssast.

Hugmyndin að auglýsingunni er að Heinz-majónesið sé svo gott á bragðið að með því geti hver sem er útbúið svo ljúffengar samlokur að þær myndu sóma sér vel í prýðis samlokusjoppu í New York.