Útilistaverkið „Imagine Peace tower“ eða Ímyndaðu þér frið, alla jafna kölluð Friðarsúlan, byggir á hugmynd Yoko Ono eiginkonu bítilsins John Lennon sem samdi þekkt lag með sama heiti hefur kostað tæplega 46 milljónir króna frá því að hún var vígð árið 2007 að því er Fréttablaðið greinir frá.

Sá kostnaður hefur bæst við uppsetningarkostnaðinn sem þrefaldaðist frá upphaflegu áætluninni, úr 30 í 100 milljónir, en í júlí 2007 bárust fréttir um að Yoko sjálf hyggðist borga umframkostnaðinn við áætlunina.

Kostnaðurinn sem fallið hefur til síðan kemur annars vegar til af kostnaði við nýja spegla í verkinu sem og endurstillingu á ljóskösturunum en hópur starfsmanna Listasafns Reykjavíkur fer út í Viðey þar sem verkið er ár hvert til að tryggja að hún skíni beint þegar kveikt er á henni á fæðingardegi John Lennon, 9. október ár hvert.

„Þetta er hægara sagt en gert þar sem verkið stendur á berangri og ekkert til að miða við. Það er sambærilegt stærra verk í New York, þar sem Tvíburaturnarnir stóðu áður, og þar hafa þeir öll þessu beinu háhýsi til að miða sig við,“ segir Sigurður Trausti sem segir að einnig er reynt að vera í sambandi við fólk í bænum sem geti metið með meiri fjarlægð hvort hún sé bein.

„Það þurfti ekkert að stilla hana af í ár þegar við kveiktum á súlunni. Það hefur einu sinni komið fyrir að við töldum okkur hafa klárað verkefnið en þegar við vorum komnir í smá fjarlægð sáum við að geislinn var ansi skakkur. Þá var klukkan bara orðin of margt þannig að við þurftum að fara aftur út í eyju daginn eftir og laga verkið.“

Friðarsúlan hefur verið vinsælt myndefni og líta margir á hana sem einkennistákn fyrir borgina, meðan aðrir harma ljósmengunina og skerta stjörnu og norðurljósasýn, auk rafmagnskostnaðarins sem Orkuveita Reykjavíkur borgar.