Það myndi kosta skattgreiðendur yfir tvo milljarða króna að niðurgreiða rafhitun til íbúðarhúsnæðis á köldum svæðum þannig að kostnaður yrði sambærilegur húshitunarkostnaði á veitusvæði Orkuveitu Reykjavíkur. Þetta kemur fram í svari Katrínar Júlíusdóttur iðnaðarráðherra við fyrirspurn Gunnars Braga Sveinssonar, þingmanni Framsóknarflokksins, á Alþingi.

Í svarinu segir að samkvæmt lögum er heimilt að niðurgreiða allt að 40.000 kWst/ári hjá hverjum notenda. Upphæð niðurgreiðslna er háð fjárveitingum hvers árs. Árið 2011 er gert ráð fyrir 1.045 milljónir króna til niðurgreiðslna vegna húshitunarkostnaðar á köldum svæðum.

„Samkvæmt útreikningum Orkustofnunar þyrfti rúmlega 1.080 milljónir kr. til viðbótar til að niðurgreiða rafhitun á köldum svæðum þannig að kostnaður við húshitun yrði sambærilegur meðalhúshitunarkostnaði á veitusvæði Orkuveitu Reykjavíkur. Heildarkostnaður yrði því um 2.127 milljónir kr., sem er nálægt tvöföldun frá því sem nú er," segir í svari iðnaðarráðherra.