Bandaríski hrávörumiðlarinn Marshall Taylor hefur gefið sig fram við bandarísku alríkislögregluna. Honum er gert að sök að hafa með ólöglegum hætti falið viðskipti sem hann gerði fyrir hönd þáverandi vinnuveitanda síns, Goldman Sachs, árið 2007 sem kostuðu bandaríska bankann 118 milljónir dala, andvirði um 14,6 milljarða króna.

Taylor hafði tekið átta milljarða dala stöðu í framvirkum samningi. Hann lét ekki aðeins hjá líða að gera yfirmönnum sínum grein fyrir stöðunni, heldur reyndi hann markvisst að koma í veg fyrir að hið rétta kæmi í ljós. Eftir að upp komst um stöðuna var hann látinn fara frá Goldman Sachs. Eftir það hóf hann störf hjá keppinautnum Morgan Stanley, en Goldman þurfti að greiða 1,5 milljónir dala í sektir fyrir að hafa ekki haft næga yfirsýn með starfsemi hans.

Eftirlitsstofnun með hrávöruviðskipti lýsti svo eftir Taylor í nóvember í fyrra og vill að hann greiði 130.000 dali í sekt sjálfur.