Fjóra milljarða kostar að klára stórhýsið við Urðarhvarf 8 í Kópavogi. Þetta skrifstofu- og verslunarhúsnæði er ríflega 16 þúsund fermetrar og hefur staðið autt síðan það var reist árið 2010 enda er húsið enn fokhelt.

Íslandsbanki eignaðist fasteignina árið 2011 eftir skuldauppgjör við fyrri eiganda. Í desember 2014 seldi bankinn eignina til fyrirtækisins Heilsubogans ehf. Í tilkynningu frá bankanum sagði að kaupverðið væri trúnaðarmál en samkvæmt ársreikningi Heilsubogans fyrir árið 2014 kemur fram að kaupverðið hafi verið 730 milljónir króna. Í ársreikningi Heilsubogans fyrir árið 2016 er fasteignin bókfærð á 954 milljónir króna. Skuldir félagsins nema 1.014 milljónum króna og eru það allt skammtímaskuldir.

Guðmundur Hjaltason, framkvæmdastjóri Heilsubogans, segir að nú sé verið að koma hita á húsið. Það sé nauðsynlegt til að halda því við.

„Síðan þurfum við að finna leigutaka með haustinu til þess að geta klárað framkvæmdirnar en í dag er húsið rúmlega fokhelt," segir Guðmundur. „Það kostar um fjóra milljarða að klára húsið. Áður en lagt verður í slíkar framkvæmdir er nauðsynlegt að fá kjölfestuleigutaka, þá er ég tala um fyrirtæki, sem þarf kannski 4 til 5 þúsund fermetra undir sína starfsemi."

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð . Meðal annars efnis í blaðinu er:

  • Í gegnum nýja lausn sprotafyrirtækisins Getlocal veita heimamenn ferðamönnum góð ráð.
  • Greiningaraðilar virðast telja hlutabréfamarkaðinn talsvert undirlagðan.
  • Atlantsolíu jók hagnað sinn um ríflega 300% á milli ára.
  • Allar breytingar á ferðaþjónustu hafa mikil áhrif á kaupmátt íslenskra heimila.
  • Formaður Framsóknarflokksins segir flokkinn reiðubúinn í ríkisstjórnarsamsstarf.
  • Óverðtryggð lán eru í mikilli sókn.
  • Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, er í ítarlegu viðtali.
  • Fjallað er um stórlaxa.
  • Matarmarkaður Hlemms hóf göngu sína um síðustu helgi.
  • Ásta Björk Sigurðardóttir hóf nýverið störf sem hagfræðingur hjá SFS.
  • Huginn og Muninn eru á sínum stað auk Týs, sem fjallar um stjórnmálaumhverfið.
  • Óðinn skrifar um kolefnisskatta.