Kostnaður við gangagerð og vegtengingu við iðnaðarsvæðið á Bakka við Húsavík er 1,3 milljarði hærri en kostnaðaráætlun Vegagerðarinnar gerði ráð fyrir. Fréttastofa RÚV greinir frá þessu.

Þar kemur fram að gert sé ráð fyrir því í fjárlagafrumvarpinu að framlög ríkissjóðs til framkvæmdanna muni nema 1,5 milljörðum króna á þessu ári.

Í frumvarpinu kemur fram að að þegar Alþingi veitti iðnaðarráðherra heimild til að semja við Vegagerðina um framkvæmdina hafi verið gert ráð fyrir að hún myndi kosta 1,8 milljarða króna. Nú sé áætlaður kostnaður hins vegar 3,1 milljarður króna.

Skýringin er sögð sú að í kostnaðaráætlun Vegagerðarinnar hafi mannvirki verið óhönnuð og kostnaður við hefðbundin veggöng staðfærður yfir á þessi göng.