Tilkynnt var í gær að Geest hefði náð samkomulagi við Bakkavör um verð til grundvallar kostgæfnisathugun og heimilað að slíkt ferli hefjist. Heimildin er byggð á verðinu 655 pens á hlut, sem yrði staðgreitt, en einnig greiðslu arðs að upphæð 7 pens á hlut. Heildarkaupverðið sem Bakkavör mun greiða fyrir Geest er því 662 pens á hlut ef allt gengur eftir eða um 493 m. punda eða tæplega 60 ma.kr.

Ekki er vissa fyrir því á þessari stundu að tilboð verði sett fram og hefur Bakkavör heimild til að bjóða lægra verð með samþykki stjórnar Geest. Við teljum þó líklegast að svo verði og samkomulag náist um það verð sem getið er að ofan. Samkvæmt tilkynningu frá félögunum er þess vænst að kostgæfnisathugun verði lokið í febrúar. Gengi beggja félaga hefur hækkað lítillega við opnun markaða í London og Reykjavík eins og bent var á í Morgunkorni Íslandsbanka.

Byggt á Morgunkorni Íslandsbanka.