*

fimmtudagur, 9. júlí 2020
Erlent 14. febrúar 2019 08:07

Kosti 12 milljónir að flytja til Mars

Elon Musk segir 70% líkur á að hann flytji sjálfur til rauðu plánetunnar eftir vel heppnaða tilraun Raptor eldflauganna.

Ritstjórn
Elon Musk, forstjóri Tesla, stýrir einnig SpaceX, en hér er hann fyrir framan Dragon flaugina sem flytur búnað á braut um jörðu.

Flutningur til Mars ætti að verða mögulegur fyrir fólk í flestum þróaðri hagkerfum heimsins fyrir sem nemur söluandvirði hússins þeirra að sögn Elon Musk forstjóra SpaceX.

Sagði hann að verðmiðinn ætti að vera á í kringum 500 þúsund Bandaríkjadali og jafnvel niður í 100 þúsund dali, eða sem nemur um 60,6 niður í 12 milljónir íslenskra króna. Miðast það við verðið fyrir hvert tonn, sem þyrfti að flytja en hver farþegi þyrfti væntanlega farangur og annan búnað til að lifa á plánetunni.

Hann viðurkennir þó að það verði þó mjög háð hve margir hefðu áhuga á að fara til Mars, en hann segir jafnframt að atvinnuleysi þegar þangað er komið ætti ekki að vera vandamál þar sem skortur verði á vinnuafli á plánetunni um fyrirsjáanlega framtíð.

 

 

Endurnefndi Marsflaugina Stjörnuskip

Sagði Musk þetta í tilefni af því að í tilraunum hefur Raptor eldflaugarhreyfill SpaceX náð þeim krafti sem þarf til að knýja nýjar eldflaugar félagsins, Starship og Super Heavy sem nýttar verða til að ferðast til Mars.

Starship flaugin, sem áður hét BFR eldlflaugin, verður knúin sjö Raptor eldflaugahreyflum, en Super Heavy, eldflaugin sem á að koma Starship á sporbaug verður knúin 31 slíkri vél.

 

 

Markmið SpaceX er að senda fyrstu flaugina til Mars strax árið 2022, en hún yrði þó ómönnuð, en myndi flytja búnað á rauðu plánetuna eins og Mars er kölluð. Fyrstu geimfararnir færu þá til Mars árið 2024 samkvæmt markmiðum félagsins.

Er markmiðið með fyrstu ferðinn að staðfesta að hægt sé að finna nýtanlegt vatn á plánetunni, og setja upp þá innviði sem þarf til að knýja landnámið á henni, sem og til námuvinnslu.

Sú næsta myndi síðan setja upp eldsneytisstöð og annan undirbúning fyrir reglulegar ferðir milli Mars og Jarðarinnar. Þannig væri kominn vísir að borg og að endingu sjálfbæru samfélagi á mars.

Musk hefur sjálfur sagt að það séu 70% líkur á að hann færi sjálfur til Mars, þegar SpaceX hefði náð verðinu niður í kringum „nokkur hundruð þúsund dali“, að því er fram kemur á vef CNBC.

Stikkorð: Mars Elon Musk SpaceX Raptor Starship Super Heavy