Kostnaður atvinnulífsins vegna launakostnaðar starfsfólks í sóttkví eða einangrun nemur ríflega 100 milljónum króna á hverjum dagi eða um 3 milljarða á mánuði, samkvæmt útreikningum Samtaka atvinnulífsins (SA). Í frétt á vef samtakanna er bent á að ríkið komi til móts við fyrirtæki vegna greiðslu launa í sóttkví en enginn styrkur er þó veittur vegna einangrunar.

„Staðreyndin er sú að mikill meirihluti einstaklinga í einangrun er ekki veikur. Þrátt fyrir þetta er sú ábyrgð lögð á atvinnurekendur að greiða laun eins og um veikindi væri að ræða.“

SA fagnar breytingum á reglum um sóttkví gagnvart einstaklingum sem eru þríbólusettir og einstaklingum sem hafa jafnað sig af staðfestu Covid-smiti en rekstur margra fyrirtækja hefur raskast vegna fjölda starfsfólks í sóttkví eða einangrun.

„Fækkun starfsfólks í sóttkví skiptir atvinnulífið miklu en breytir ekki þeirri staðreynd að kostnaður atvinnulífsins á næstu mánuðum mun hlaupa á milljörðum króna vegna mikils fjölda starfsfólks sem sætir takmörkunum sóttvarnaryfirvalda sem hafa veruleg neikvæð áhrif á samfélagið allt,“ segir í grein samtakanna.

Eftirbátur Norðurlandanna

SA segir að Ísland sé eftirbátur í þessum málum í samanburði við hin Norðurlöndin. Þau hafi flest horfið frá beitingu sóttkvíar og komi til móts við atvinnulífið með endurgreiðslu hluta launakostnaðar vegna Covid-einangrunar.

„Íslensk fyrirtæki búa nú við minnstan opinberan stuðning hvað varðar greiðslu launakostnaðar í norrænum samanburði vegna íþyngjandi áhrifa sóttvarnaraðgerða.“

Bent er á að í Svíþjóð sé lögbundinni ekki beitt en stjórnvöld þar í landi ákváðu í ljósi Ómíkron-afbrigðisins að endurgreiða launagreiðendum greidd veikendalaun frá byrjun desember síðastliðins eftir ákveðinni reiknireglu. Dönsk stjórnvöld beiti sóttkví í takmörkuðum mæli og ríkið greiðir launafólki sjúkradagpeninga frá fyrsta veikindadegi með svipuðum hætti og í tilviki sóttkvíar á Íslandi. Þá fari Norðmenn sambærilega leið og Íslendingar hvað varðar sóttkví en endurgreiði einnig atvinnurekendum hluta veikindadaga vegna einangrunar.

Mynd tekin af heimasíðu Samtaka atvinnulífsins.