Að jafnaði hafa stór verk Vegagerðarinnar undanfarin áratug aðeins farið 7 prósent framúr kostnaðaráætlun hefðbundinna verkefna í vegagerð. Þetta kemur fram í frétt á vef fyrirtækisins. Í jarðgangaverkum er kostnaðurinn tæp 109 prósent af kostnaðaráætlun að meðaltali. Áætlanir standast því að jafnaði nokkuð vel og fara einungis 7-9 prósent yfir áætlun, oft af eðlilegum ástæðum er snúa að óhjákvæmilegri óvissu.

„Mikil umræða hefur verið í þjóðfélaginu um framúrkeyrslu kostnaðar í  opinberum framkvæmdum.  Eðli málsins samkvæmt kemur það illa við bæði stjórnvöld og almenning þegar fyrirsjáanleiki virðist ekki vera til staðar við kostnaðaráætlanir stórra og fjárfrekra framkvæmda," segir í fréttinni.

Frávikin í einstökum verkum Vegagerðarinnar eru allt frá 70% til 145% af kostnaðaráætlun.  Á tímabilinu reyndust 7 verk undir áætlun og 16 verk yfir áætlun og flest verkin voru innan við 10% yfir áætlun.