Umboðsmaður Alþingis hefur merkt þróun í gjaldtöku fyrir opinbert eftirlit á síðustu árum sem virðist benda til þess að löggjafinn og stjórnvöld séu að fjarlægjast kjarna þjónustugjalda. Í ársskýrslu umboðsmanns kemur fram að svo virðist sem borgarar séu í auknum mæli látnir greiða fyrir störf stjórnvalda sem fela í sér rækslu lögbundinna verkefna.

Sem kunnugt er er sköttum ætlað að standa undir almennum útgjöldum ríkisins án þess að gjaldendur eigi sérstaka kröfu á að tiltekin þjónusta sé framkvæmd á móti. Þjónustugjöld eru lögð á gegn tiltekinni þjónustu og mega þau ekki vera hærri en kostnaður sem hlýst af því að veita þjónustuna. Þess hefur gætt í auknum mæli að í lögum sé orðað með almennum hætti hvað geti fallið undir gjaldtökuheimildina.

„Í þessu sambandi vakna ekki bara spurningar um hvaða kostnaður geti í raun fallið undir þjónustugjaldaheimildina heldur líka hvaða möguleika [gjaldendur] hafa til að leggja mat á það hvernig kostnaður við þá „þjónustu“ […] er fundinn og hvernig hann samrýmist gjaldtökuheimildinni,“ segir í skýrslunni. Frumkvæðisathugun umboðsmanns á framgöngu löggjafans og stjórnvalda í þessum efnum hefur staðið yfir með hléum undanfarin ár.