Fyrir um það bil þremur árum kviknaði sú hugmynd að byggja upp baðaðstöðu við Húsavík þar sem söltu vatni, sem kemur úr borholum á Húsavíkurhöfða, yrði veitt í baðlaugar. Hugmyndin komst ekki á flug fyrr en á þessu ári og nú er útlit fyrir að framkvæmdir á Höfðanum hefjist um mitt næsta ár, eða um leið og vinnu við deiliskipulag svæðisins lýkur. Á bak við verkefnið stendur félagið Sjóböð ehf.

Áætlaður kostnaður við byggingu baðaðstöðu á Húsavíkurhöfða er um 400 milljónir króna, að sögn Péturs J. Eiríkssonar, stjórnarformanns Sjóbaða ehf. Í fyrsta áfanga verður reist hús, sem í verður búningsaðstaða og veitingasalur. Inni í þessari áætlun er einnig uppbygging sjálfra baðanna. Í næsti áfanga er síðan stefnt að byggingu heilsuhótels en Pétur segir ekki tímabært að segja hversu mikið það muni kosta — sú framkvæmd sé framtíðarmúsík.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .