Kostnaður vegna starfa Icesave-nefndarinnar svokölluðu, sem samdi við Breta og Hollendinga í Icesave-málinu og Lee Buchheit leiddi, er yfir 300 milljónum króna. Upphæðin nær til greiðslna til erlendra aðila frá upphafi árs 2010 og þar til samningar náðust.

Þetta kom fram í svari Steingríms J. Sigfússonar fjármálaráðherra við fyrirspurn Sigumundar Davíðs Gunnlaugssonar í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag. Sigmundur Davíð spurði hver kostnaður væri um það bil og hvort einhver kostnaður hafi bæst við eftir að störfum nefndarinnar lauk.

Fjármálaráðherra sagði að innlendur kostnaður væri hóflegur og færi eftir settri gjaldskrá. Kostnaður vegna erlenda aðila væri hinsvegar meiri og ákveðið hafi verið að spara ekki til. Steingrímur sagði að engin aukakostnaður hafi fallið til eftir að störfum nefndarinnar lauk.