Viðskiptaráð Íslands hefur reiknað út hversu hár kosningatékkinn væri, ef að kosningaloforð hinna ýmsu flokka myndu fram ná að ganga. Heildarkostnaður ýmissa kosningaloforða hleypur á tugum milljarða og samanlagt gætu opinber útgjöld aukist um nærri tvö hundruð milljarða á ári ef helstu loforðin væru uppfyllt. Þetta kemur fram í samantekt Viðskiptaráðs .

Til samanburðar þá bendir Viðskiptaráð á að heildarútgjöld ríkissjóðs á þessu ári nema um 700 milljörðum króna. Því myndi útreiknuð hækkun ráðsins jafngilda um 27% aukningu á umsvifum hins opinbera á næsta kjörtímabili. Viðskiptaráð bendir einnig á að flestum væri ljóst að efnahagsleg áhrif slíkrar breytingar væri neikvæð.

VÍ skiptir helstu loforðum sem  hafa komið fram í kosningabaráttunni upp í þrjá flokka. Fyrsti flokkurinn nær yfir loforð tengd heilbrigðiskerfinu, annar flokkurinn loforð tengd lífeyrisgreiðslum og sá þriðji yfir önnur loforð.

Heilbrigðismál

Heilbrigðismál er sá málaflokkur sem hvað mest hefur verið í deiglunni. Í því samhengi þá vísar Viðskiptaráð til tveggja loforða; annars vegar afnám kostnaðarþátttöku sjúklinga og aukningu heildarútgjalda til heilbrigðismála í 11% af landsframleiðslu.

Viðskiptaráð áætlar því að leggja þyrfti tæplega 100 milljarða til viðbótar við málaflokkinn til að uppfylla þessi tvö kosningaloforð.

Lífeyrismál

Annað stórt kosningamál sem hinir ýmsu flokkar hafa lagt til er hækkun lágmarksgreiðslna vegna elli- og örorkulífeyris í 300 þúsund krónur á mánuði.

Ef að lágmarkslífeyrir væri hækkaður upp í 300 þúsund myndi það kosta ríkissjóð 40 milljarða á ári samkvæmt útreikningi Viðskiptaráði Íslands.

Önnur loforð

Viðskiptaráð tekur einnig til ýmis önnur kosningaloforð. Til að mynda tvöföldun barnabóta, auknum framlögum til byggingar leiguíbúða og gjaldfrjálsum tannlækningum fyrir alla.

Samanlögð útgjöld þessara þriggja flokka nema um 60 milljarðar króna. Hins vegar er þessi upptalning Viðskiptaráðs ekki tæmandi - en ýmsum róttækari kosningaloforðum hefur verið slengt fram, t.a.m vaxtalaust fjármálakerfi og borgaralaun.