Finnska menntakerfið er talið af mörgum standa öðrum slíkum kerfum framar. Frá því að fyrst var farið að gera hinar svokölluðu PISA kannanir árið 2000 hafa Finnar alltaf komið mjög vel út, hvort sem það er í lestri, vísindum eða stærðfræði. Þegar tölur OECD eru skoðaðar sést að finnska menntakerfið er þrátt fyrir þetta ekki mjög dýrt í alþjóðlegum samanburði, einkum þegar kemur að grunnskólanámi.

Árið 2010 kostaði hver grunnskólanemandi í Finnlandi um 7.600 Bandaríkjadali, en til samanburðar kostaði hver íslenskur grunnskólanemi um 9.500 dali. Árið 2011 voru 14 nemendur á hvern kennara í finnskum grunnskólum, en 10 nemendur á hvern kennara í grunnskólum á Íslandi. Lægri kostnaður hefur ekki komið niður á árangri finnskra nemenda.

Margt bendir til þess að góður árangur finnskra nemenda sé til kominn vegna kennaranna í finnskum skólum. Kennaranámið er eitt vinsælasta háskólanám landsins. Kennaranámið tekur fimm ár og lýkur með meistaraprófi, en einungis einn af hverjum tíu sem sækir um námið kemst inn. Því eru það bestu nemendurnir sem verða kennarar, auk þess sem þeir eru duglegir að sækja sér endurmenntun. Líklega skiptir þar töluverðu máli að laun kennara eru mun hærri en í öðrum OECD ríkjum, en í samanburðartölunum eru laun kennara borin saman við meðallaun annarra háskólamenntaðra einstaklinga í fullu starfi. Eru finnskir kennarar mun nær meðaltalinu og í tilviki háskólakennara eru þeir aðeins yfir meðallaunum háskólamenntaðra.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .