*

mánudagur, 26. júlí 2021
Innlent 13. mars 2015 11:19

Kostnaður ríkis vegna útlandaferða nam 900 milljónum

Árið 2013 nam kostnaður ríkissjóðs vegna allra ferða erlendis um 900 milljónum króna, samkvæmt frétt fjármálaráðuneytis.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Árið 2013 nam kostnaður ríkissjóðs vegna allra ferða erlendis um 900 milljónum króna. Inni í þeirri upphæð er kostnaður við flug til og frá landinu, tengiflug erlendis, auk allra ferða með lestum, rútum, skipum og ferjum. Kemur þetta fram í frétt á vefsíðu fjármálaráðuneytisins.

Ferðakostnaður er bókfærður á þann sem ferðast hverju sinni á vegum ríkisins, ekki á þau félög sem ferðast er með. Því er ekki greinanlegt í bókhaldi Fjársýslu ríkisins hver viðskipti við einstök félög eru árlega. Samkvæmt upplýsingum sem fjármála- og efnahagsráðuneytið fékk frá Icelandair námu viðskipti stofnana ríkisins við félagið um 300 milljónum króna árið 2013.

Íslensk stjórnvöld eiga í margháttuðum erlendum samskiptum og því stendur ríkið straum af kostnaði við ferðir til og frá landinu. Ríkissjóður greiðir að auki ferðakostnað annarra í öðrum tilvikum, t.a.m. þegar íslenskir borgarar þurfa að leita læknisaðstoðar erlendis, að því er segir í fréttinni.