Ríkið borgar 36 milljónum króna meira í húsaleigukostnað á ári eftir sameiningu Landlæknisembættisins og Lýðheilsustöðvar.

Þetta kom fram í kvöldfréttum RÚV í kvöld en sem kunnugt er voru stofnanirnar tvær sameinaðar um síðustu áramót. Þegar sameining stofnananna var kynnt var hún sögð í hagræðingarskyni.

Fram kom í fréttum RÚV að um síðustu mánaðarmót hafi hið sameinaða embætti flutt og hafið starfsemi í gömlu heilsuverndarstöðinni við Barónstíg. Húsaleigukostnaður við það húsnæði nemur 41 milljón króna á ári sem skv. frétt RÚV var samanlagður leigukostnaður stofnananna tveggja var 28,9 milljónir króna á ári og hækkar því um 12 milljónir króna á ári.

Húsnæðið á Seltjarnarnesi sem áður hýsti embætti Landlæknis.
Húsnæðið á Seltjarnarnesi sem áður hýsti embætti Landlæknis.

Húsnæðið á Seltjarnarnesi sem áður hýsti embætti Landlæknis.

Þar fyrir utan bætist við kostnaður vegna húsnæðis á Seltjarnarnesi sem áður hýsti Landlæknisembættið. Ríkið er skuldbundið af óuppsegjanlegum leigusamningi þar, fram til ársins 2027 eða í 16 ár til viðbótar. Leigan á því húsnæði nemur 24 milljónum króna á ári, eða 2 milljónum á mánuði.

Sem fyrr segir er samanlagður árlegur húsaleigukostnaður því 36 milljónum króna hærri en áður.

Í frétt RÚV kom einnig fram að Ríkisendurskoðun hefur gert athugasemdir við kostnað vegna sameiningar stofnananna og gagnrýnt að fjárhagsáætlun hafi ekki legið fyrir áður en ráðist var í sameininguna.