Heildarkostnaður hins opinbera við sölu á Arion banka og Íslandsbanka til erlendra kröfuhafa gömlu bankanna er 406 milljarðar króna vegna samanlagðrar lausafjárfyrirgreiðslu upp á 217 milljarða til handa bönkunum tveimur. Frá þessu greinir Morgunblaðið og vísar til skýrslu fjármálaráðherra um endurreisn bankanna. Stefnubreyting núverandi ríkisstjórnar frá því í febrúar 2009 hefur því, að sögn Morgunblaðsins, kostað meira en þá 385 milljarða sem endurfjármögnun og yfirtaka ríkisins á bönkunum var talin myndu kosta.

„Ríkisstjórnin hefur haldið því fram að sú leið að selja þrotabúum Íslandsbanka og Arion hafi sparað ríkissjóði um 200 milljarða. Fjárfesting ríkissjóðs vegna endurreisnar bankanna hafi numið 190 milljörðum í stað 385 milljarða. Hins vegar hefur ríkið veitt Íslandsbanka og Arion lausafjárfyrirgreiðslu fyrir um 217 milljarða. Veðin að baki þessari fyrirgreiðslu eru m.a. eignasafn þrotabús SPRON, svo dæmi sé tekið. Samtals nemur þetta um 406 milljörðum,“ segir í frétt Morgunblaðsins. Eins og fram kom í frétt vb.is hinn 28. apríl sl. er bókfært verð eigna Spron 106 milljarðar og er stefnt að því að 77 milljarða forgangskrafa Arion banka verði greidd að fullu fyrir árslok 2014.

Rætt er við Tryggva Þór Herbertsson, alþingismann, sem segir fjármálaráðherra auk þessa hafa misst forræði yfir bönkunum þannig að vænt verðmætaaukning muni enda hjá erlendum kröfuhöfum í stað ríkissjóðs.