Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, segir að þrátt fyrir ákvæði kjarasamninga um styttingu vinnuvikunnar sé víða pottur brotinn í innleiðingu vinnustaða. Sumir hópar hafi einfaldlega ekki fengið neina styttingu, aðrir of litla, og stytting sumra hafi falið í sér verulega íþyngjandi og hreinlega ólöglegar kvaðir á borð við að læknisheimsóknir á vinnutíma séu dregnar frá styttingunni.

Til viðbótar hafi stytting í störfum sem felast að miklu leyti í viðveru verið útfærð þannig að einfaldlega séu færri á vakt, sem auki álag á þá sem eftir eru. Þetta sé gert til að halda kostnaðarhlutleysi styttingarinnar, en Sólveig telur það ekki raunhæft markmið að styttingu vinnuviku vaktavinnustétta megi ná fram án kostnaðar.

„Það er ekki hægt að innleiða styttingu á vinnustöðum sem þegar eru sligaðir af álagi og ætla bara að gera það verra. Miðað við það ástand sem ríkir á fjölmörgum hjúkrunarheimilum hef ég mjög miklar áhyggjur af því hvernig það muni ganga að leysa þetta.“

Sólveig tekur þó skýrt fram að mikil ánægja sé meðal félagsmanna sinna með styttinguna sem slíka. „Okkar afstaða er bara sú að það þarf kostnaður að fylgja þessu.“

Ekki hægt að heimfæra tilraunina á samfélagið allt
Guðmundur Haraldsson – einn höfunda skýrslu sem skrifuð var um tilraunaverkefni ríkisins og borgarinnar – bendir á að þar hafi þetta verið leyst með ýmsum hætti án þess að það teldist bitna á starfseminni eða starfsfólkinu, meðal annars með því að velja tímapunkta þar sem vaktir sköruðust og þar sem álag eða verkefni voru minni, svo sem undir lok dags á leikskólum þegar sum börn höfðu þegar verið sótt.

Lausnirnar hafi verið mismunandi eftir aðstæðum og eðli þeirra starfa sem um ræddi, en fundist hafi slíkt svigrúm til hagræðingar og þar með styttingar í öllum þeim störfum sem tilraunin tók til. Hann segir þó ekki sjálfgefið að slíku svigrúmi sé alltaf til að dreifa. Það sé því ekki endilega hægt að heimfæra niðurstöður tilraunarinnar á samfélagið allt.

Hann vill ekki tjá sig um útfærsluna hjá félagsmönnum Eflingar sérstaklega, né aðrar útfærslur utan tilraunarinnar, enda hafi hann ekki komið að þeim. „Samfélagið okkar er flókið og öll störf og vinnustaðir eru ólík. Það þarf alltaf að beita dómgreind þegar svona stytting er útfærð.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .