Óvenjumargir greindust með HIV sýkingu hér á landi árið 2016, samkvæmt farsóttaskýrslu sóttvarnalæknis. Alls greindust 27 einstaklingar með sýkinguna, sem er tvöfalt meira en á árunum 2014 og 2015. Þar af voru 14 með íslenskt ríkisfang og 13 af erlendu bergi brotnir. Aldrei hafa eins margir greinst með HIV hér á landi á einu ári frá því að faraldurinn byrjaði.

Samkvæmt upplýsingum frá smitsjúkdómadeild Landspítalans eru 214 einstaklingar í HIV meðferð á göngudeild spítalans í dag. Þar af eru einstaklingar með erlent ríkisfang 76 eða rúmlega 35%, en þorri þeirra er erlent vinnuafl af evrópska efnahagssvæðinu.

Ekki liggur fyrir heildarkostnaður vegna ársmeðhöndlunar á öllum HIV tilfellum hér á landi, en gróflega má áætla að kostnaður við hvern stabílan sjúkling á ári vegna lyfjameðferðar, blóðprufa og komu til sérfræðings nemi tæplega 1,4 milljónum króna á ári samkvæmt upplýsingum frá smitsjúkdómadeild. Áætlaður heildarkostnaður fyrir árið vegna þeirra sem eru nú í meðferð nemur því tæplega 300 milljónum króna að lágmarki. Þar af er kostnaður vegna erlendra ríkisborgara rúmlega 106 milljónir.

Athygli skal vakin á því að ef um er að ræða sjúkling með einkenni um æxli eða tækifærissýkingu fer kostnaðurinn upp um hundruð þúsunda og jafnvel milljónir. Allur kostnaður vegna HIV meðferðar er greiddur með skattfé.