Áætlaður kostnaður hins opinbera vegna vaxtabóta á þessu ári er um 18 milljarðar króna sem felur í sér að ríkið greiðir niður nær þriðjung af útgjöldum heimilanna vegna húsnæðislána. Þetta kemur fram í aðsendri grein Steingríms J. Sigfússonar, fjármálaráðherra, í Fréttablaðinu í dag. Segir hann Ísland vera fremst í flokki innan OECD hvað varðar vaxtaniðurgreiðslu íbúðalána enda sé kostnaðurinn vegna þessa rúmlega 1% af landsframleiðslu.

Í greininni kemur jafnframt fram að hið opinbera hafi um mánaðarmótin lagt inn samanlagt um 3 milljarða króna á bankareikninga um þriðjungs landsmanna vegna hinna sértæku vaxtabóta sem eru liður í aðgerðum hins opinbera og fjármálakerfisins til handa skuldsettum heimilum. Alls fengu tæplega 97 þúsund einstaklingar sérstakar vaxtabætur hinn 1. maí sl.