Michael Metz Mørch, stjórnarformaður Wonderful Copenhagen, lét af starfi sínu í dag í skugga þess að fjárhagsáætlun vegna Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva í maí stóðst engan vegin. Hallarekstur vegna söngvakeppninnar nam 58 milljónum danskra króna eða sem nemur 1,2 milljörðum íslenskra króna. Wonderful Copenhagen, sem segja má að sér einskonar Höfuðborgarstofa Kaupmannahafnar, þarf að greiða 12 milljónir danskra króna af heildinni. Það svarar til um 250 milljóna íslenskra króna.

Danskir fjölmiðlar fjalla flestir hverjir um málið í dag og segja framúrkeyrslu hneyksli. Í danska viðskiptablaðinu Börsen segir að fjárhagsáætlun Wonderful Copenhagen vegna söngvakeppninnar hafi upphaflega hljóðað upp á 35,6 milljónir króna. Þegar upp var staðið var reikningurinn um þrisvar sinnum hærri. Hann nam 112 milljónum danskra króna eða sem nemur 2,3 milljörðum íslenskra króna.

Mestu munar um endubætur á skipasmíðastöðinni Refshaleøen þar sem keppnin var haldin í maí. Upphaflega var gert ráð fyrir því að verkið myndi kosta um 18 milljónir danskra króna. Þegar upp var staðið var það talsvert dýrara eða upp á tæpar 90 milljónir.