Þórður Pálsson, forstöðumaður fjárfestinga hjá Sjóvá, gagnrýnir háan kostnað íslenska hlutabréfamarkaðarins í nýjasta hlaðvarpsþætti Chess after Dark. Hann kallar eftir því að umgjörð markaðarins verði endurskoðuð þannig að ódýrara verði fyrir almenning að taka þátt.

„Mér finnst alveg skelfilegur kostnaður við þetta. Það er of mikið bil á kaup- og sölutilboðum, sem er algengt á milli 1%-2%. Síðan bætir þú við 0,75 prósentu [umsýslugjaldi] til að eiga viðskipti. Þannig að ef þú kaupir öðrum megin og selur hinum megin þá ertu með allt upp í 3,5% [af andvirðinu] bara í kostnað. Þá þarftu að vera fjandi góður til þess að það borgi sig að kaupa og selja [í stökum félögum] frekar en að vera í sjóð.“

Þórður, sem starfaði á sínum tíma sem framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar Kaupþings, segir að það hafi alltaf angrað sig við íslenska markaðinn að almennir fjárfestar geti ekki nálgast gjaldfrjálsar upplýsingaveitur með hlutabréfaverði í rauntíma heldur þurfi þeir að fylgjast með þessum gögnum með 15 mínútna töf, líkt og á Keldunni.

„Út af hverju? Vegna þess að Kauphöllin er að selja þessar upplýsingar. Það má bara spyrja sig, af hverju bara sleppum við ekki bara við að vera með kauphöll í glerhýsi á Laugavegi með fullt af starfsmönnum?“ spyr Þórður og bætir við að það sé ekki tæknilega flókið að halda uppi markaði eins og þeim íslenska. Hægt væri að keyra markaðinn á iPhone 5 eða álíka tæki.

Það þurfi þó utanumhald um öll viðskipti og prýðisfólk starfi hjá Kauphöllinni „en kostnaðurinn er alltof mikill“.

Fagfjárfestar ofmetnir

Ummælin voru látin falla í umræðum um innkomu einstaklinga á hlutabréfamarkaðinn á síðustu árum. Á árunum 2020-2021 fjölgaði einstaklingum hér á landi sem eiga skráð hlutabréf úr 8 þúsund í ríflega 30 þúsund. Spurður hvort innreið einstaklinga á markaðinn hafi ýtt hlutabréfaverði upp fyrir raunverulegt virði bréfanna, vildi Þórður ekki taka undir þá kenningu.

„Ég er mjög eindregið þeirrar skoðunar að mikil þátttaka á markaðnum bæti mjög verðmyndunina og auki líkurnar á því að virði bréfanna sé einhvers staðar nálægt sannvirði. Ég held að mjög margir fjárfestar, einstaklingar, hafi mikið fram á að færa – með því sem þeir sjá og skynja í þjóðfélaginu og að þeir setji sig inn í hlutina,“ segir Þórður.

„Á sama tíma ertu með svokallaða fagfjárfesta, sem er orðið frægt hugtak núna en mér hefur alltaf þótt ofmetið. Það að vera fagfjárfestir er að stýra annara manna peningum og eiga ekkert undir sjálfur.“

Þá gagnrýnir Þórður stofnanavæðingu fjárfestingarferilsins á Íslandi með kvöðum á stóra stofnanafjárfesta á borð við lífeyrissjóðina.

„Lífeyrissjóðir greyin geta varla sett inn tilboð í Kauphöllina lengur án þess að skrifa langa ritgerð og skjala hana í einhverju ISO-kerfi. Þetta er alveg hlægilegt. En það gefur auðvitað þessum minni [fjárfestum] meiri séns.“