Verulegur kostnaður fylgir gjaldeyrishöftunum og er talinn í milljörðum króna. Þetta sagði Finnur Oddsson, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands, í upphafi fundar sem ber yfirskriftina „Afnám á einu ári?“. Þar er kynnt skýrsla sérfræðingahóps þar sem kostnaður við höftin er metinn og lögð til leið til að afnema höftin eins fljótt og auðið er, án þess að hætta á óstöðugleika.

Finnur sagði að auk kostnaðar við undanþágubeiðnir séu vel á annað hundrað manns í vinnu hjá Seðlabankanum og bönkunum eingöngu vegna haftanna. Í skýrslunni er beinn heildarkostnaður undanþágubeiðna metinn á 722 milljónir króna.

Hann spurði hvers vegna doði er yfir umræðu um gjaldeyrishöftin og skaðsemi þeirra. Skýringin gæti verið sú að lansmenn finna ekki á eigin skinni fyrir skaðsemi haftanna, og jafnvel þvert á móti. Til að mynda auðveldi þau fjármögnun bankakerfisins, hækka fasteignaverð og skapa ávinning fyrir þá sem vel þekkja til. Þau séu líkt og afréttari fyrir drykkjumann, sagði Finnur. Manninum líður betur eftir drykkinn, en undirliggjandi vandi er enn til staðar.