Átján Íslendingar fóru í líffæraígræðslur á grundvelli samnings við Sahlgrenska sjúkrahúsið í Gautaborg í fyrra. Kostnaðurinn við þessar ígræðslur var tæplega 100 milljónir. Þetta kemur fram í svari heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Silju Dögg Gunnarsdóttur þingmanns um þjónustusamning um líffæri.

Árið 2012 voru þessar ígræðslur 12 talsins og 14 árið þar á undan. Dýrustu aðgerðirnar eru hjartaígræðslur, en ein slík aðgerð var framkvæmd í fyrra. Aðgerðin kostaði rúmar 25 milljónir króna. Þá var kostnaður ríkisins við lungnaígræðslu rúmar 24 milljónir króna, en tveir Íslendingar fóru í slíkar aðgerðir í fyrra.

Einn fór í nýrna- og brisígræðslu, sem kostaði 19,5 milljónir. Þá fengu sex nýja lifur og átta nýtt nýra.

Þá kemur fram í svari Kristjáns Þórs Júlíussonar heilbrigðisráðherra að í gildi er samningur um mergígræðslur við Karolinska sjukhuset í Stokkhólmi. Fimm einstaklingar fengu mergígræðslur þar í fyrra og var meðalkostnaðurinn rúmlega 28 milljónir króna.