Íslandsbanki og Landsbanki Íslands fá hvor um sig 90 milljónir króna í grunnþóknun frá Icelandair vegna sölutryggingar þeirra í komandi hlutafjárútboði félagsins. Heildarkostnaður við útboðið er alls 290 milljónir króna. Þetta er meðal þess sem lesa má úr útboðslýsingu félagsins sem birt var í kvöld.

Lýsingin hefur einnig að geyma upplýsingar um flotamál félagsins. Þar kemur fram að vonir standi til að hátt í tvöfalda hann á næstu fimm árum, fara úr 20 vélum upp í 36. Ekki hefur hins vegar verið ákveðið hvort það verði vélar frá Boeing eða Airbus. Sá möguleiki er viðraður að floti félagsins verði blandaður en stefnt er að því að 737Max vélarnar verði fyrirferðamiklar næstu árin.

Hlutafjárútboðið er fyrirhugað þann 16.-17. september næstkomandi og hefur því verið seinkað um tvo daga. Í fjárfestakynningu nýverið var kunngjört að útboðið væri fyrirhugað 14.-15. september. Niðurstöður þess verða tilkynntar föstudaginn 18. september.

Á morgun fer fram hluthafafundur þar sem farið verður fram á að stjórn félagsins verði veitt heimild til hlutafjárhækkunnar. Stefnt er að því að safna allt að 20 milljörðum nýrra hluta á genginu einum. Verði umframeftirspurn er heimilt að bæta allt að þremur milljörðum hluta við.

Verði eftirspurn hins vegar minni en vonir félagsins standa til hafa ríkisbankarnir tveir, Íslandsbanki og Landsbankinn, sölutryggt þrjá milljarða hluta hvor, að því gefnu að tilboð nái minnst fjórtán milljörðum króna. Auk fyrrgreindra 90 milljóna króna fá bankarnir tveir 2% af þeirri upphæð sem þeir þurfa að leggja til vegna sölutryggingarinnar. Síðasti hluti þóknunarinnar felst í því að verði umframeftirspurn í útboðinu stendur hvorum banka fyrir sig til boða að skrá sig fyrir hálfum milljarði hluta til viðbótar.

Í lýsingunni segir að útboðið sé aðeins markaðssett hér á Íslandi. Er það opið öllum og verður lágmarksboð 100 þúsund krónur. Tilboð upp að tuttugu milljónum króna munu fara í tilboðsbók B, sem telur samtals 3 milljarða hluta, en hærri tilboð í A-bók. Hún telur sautján milljarða hluta. Í lýsingunni er tekið fram að ekkert standi því í vegi að starfsfólk Íslandsbanka og Landsbankans taki þátt í útboðinu en mögulegt sé að strangari skilyrði gildi um það heldur en almennan þátttakanda.

Í lýsingunni er enn fremur tekið fram að félagið sé bundið af ákvæðum hlutafélagalöggjafarinnar þegar kemur að því að úthluta mögulegum arði. Auk þess er það bundið skilyrðum lánasamninga sem kveða tímabundið á um aukin skilyrði fyrir mögulegri arðgreiðslu.

Lýsinguna má finna í heild sinni hér .