Kostnaður Íslandsbanka við stjórn og stjórnendur Íslandsbanka nam 211,6 milljónir króna. Laun Birnu Einarsdóttur, bankastjóra Íslandsbanka, námu 31,6 milljónum eða um 2,6 milljónum króna að meðaltali á mánuði. Þetta kemur fram í ársreikningi Íslandsbanka fyrir árið 2010 sem birtur var í dag.

Laun Birnu hækkuðu nokkuð milli ára en þau 24,1 milljón á árinu 2009 eða sem nemur um tveimur milljónum króna á mánuði.

Friðrik Sophusson, stjórnarformaður bankans, var með 525 þúsund krónur að meðaltali á mánuði í fyrra en aðrir stjórnarmenn, sem voru virkir í stjórn allt árið,voru með nokkru minna eða um 358 þúsund krónur að meðaltali.

Sjö framkvæmdastjórar bankans voru með samtals 147 milljónir króna í laun í fyrra eða sem nemur um 1,75 milljónum á mánuði á mann.

Starfsmönnum Íslandsbanka fjölgaði nokkuð á síðasta ári. Þeir voru 1.039 í byrjun ársins en 1.080 í lok ársins.

Íslandsbanki hagnaðist um 29,4 milljarða króna í fyrra. Eiginfjárhlutfall bankans er nú 26,6% en lágmark FME er 16%.