Hátt í 1.500 manns hafa nú látist af völdum kórónuveirunnar – sem á þriðjudag fékk nafnið Covid-19 frá Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni – og yfir 60 þúsund tilfelli verið staðfest, þar á meðal á flestum Vesturlöndum.

Á heimsvísu er því nú spáð að hagvöxtur muni dragast saman um 0,3% vegna faraldursins, en aðeins er spáð rúmlega 2% vexti á þessu ári. Prófessor í hagfræði segir áhrifin á Íslandi líklega verða svipuð og í heiminum öllum, en fari svo að loka þurfi landinu kunni þau að verða talsvert meiri. Ljóst er að mest verða áhrifin í Kína, þar sem faraldurinn hófst, en mikilvægi landsins fyrir heimshagkerfið hefur farið ört vaxandi síðustu ár og áratugi, og því viðbúið að óbein áhrif á önnur lönd verði mun meiri en áður.

Stendur undir 17% heimsframleiðslu
Þegar SARS-faraldurinn reið yfir heiminn árið 2003 stóð Kína undir um 4% af heimsframleiðslu. Í dag er hlutfallið um 17%. Verksmiðjur landsins hafa tæknivæðst hratt, og framleiða nú ekki aðeins fatnað og ódýran, einfaldan varning, heldur einnig íhluti fyrir dýr og flókin raftæki á borð við snjallsíma og fartölvur.

Auk þess að verða orðin ómissandi miðstöð íhlutaframleiðslu fyrir ýmiss konar hátæknivörur, er Asíulandið fjölmenna orðið einhver stærsti og örast vaxandi markaður margra stærstu fyrirtækja heimsins. Hundruð milljóna tiltölulega vel stæðra Kínverja kaupa nú snjallsíma, bíla og tískuvörur frá Vesturlöndum, auk þess að ferðast þangað í massavís.

Það er því til mikils að tapa fyrir vestræn hagkerfi, verði áhrifin þar víðtæk og langvarandi, en í dag er því spáð að hagvöxtur nýmarkaðsríkisins á ársgrundvelli á fyrsta ársfjórðungi verði frá 5,5% og niður í 0. Áður hafði verið gert ráð fyrir tæpum 6% vexti, en hann hefur farið minnkandi síðustu ár, eftir að hafa verið um 10% um árabil.

Sundurleitar spár endurspegla mikla óvissu
Þótt ljóst sé að áhrifin á heimsbúskapinn verði nokkur, er óvissan mikil, og afar breitt bil milli þeirra svartsýnustu og bjartsýnustu. Stjörnufjárfestirinn Ray Dalio lét hafa eftir sér á þriðjudag að meira væri gert úr málinu en efni stæðu til. Aðrir eru þó mun svartsýnni og hafa meðal annars vísað til spár Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar frá 2013, hvar heildartjón skæðs heimsfaraldurs er metið á um 5% heimsframleiðslunnar, sem samsvarar yfir 500 þúsund milljörðum króna.

Áhrifin á alþjóðlega markaði hafa ekki látið á sér standa. Olíuverð hefur lækkað vegna áhyggna af fallandi eftirspurn frá Kína, sem frá og með síðasta hausti er stærsti einstaki innflytjandi olíu og jarðgass. Þá hefur Bandaríkjadalur styrkst talsvert gagnvart helstu viðskiptamyntum, en hann er álitinn öruggari en aðrir gjaldmiðlar og á það því til að styrkjast þegar óvissa og áhættufælni aukast.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .