Árni Páll Árnason efnahags- og viðskiptaráðherra mun leggja fram frumvarp sem felur í sér að öll gengistryggð bílalán verði ólögmæt, óháð efni samninga. Lánin verða færð yfir í íslenskar krónur og endurreiknast á vöxtum Seðlabankans. „Það fordæmi sem skapað var í dag gildir þá um alla bílalánasamninga með gengisviðmiðun óháð því hvernig orðalag þeirra nákvæmlega er," sagði Árni Páll á blaðamannafundi í dag.

Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu í dag að gengisbundin bílalán skuli reiknast miðað við vexti Seðlabankans. Eftir að niðurstaða Hæstaréttar lá fyrir var boðað til blaðamannafundar þar sem Árni Páll Árnason, Már Guðmundsson seðlabankastjóri og Gunnar Andersen forstjóri Fjármálaeftirlits sátu fyrir svörum.

Lögin munu ná yfir bíla- og húsnæðislán

Frumvarp efnahags- og viðskiptaráðherra mun ná yfir gengistryggð bíla- og húsnæðislán til neytenda.

„Þar með verði skuldurum þeirra lán boðið að velja sér óverðtryggð kjör, verðtryggð, eða að færa lánið yfir í hreint erlent lán," segir Árni Páll.

Kostnaður bankakerfisins um 43 milljarðar króna

Á fundinum í dag kom fram að kostnaður bankakerfisins vegna niðurstöðu Hæstaréttar, og í kjölfarið lagasetningu um að öll bíla- og húsnæðislán skuli hlíta sömu útreikningum og niðurstaða Hæstaréttar gerir ráð fyrir, nemi um 43 milljörðum króna.

Fjármálaeftirlitið (FME) hefur á síðustu mánuðum kallað eftir gögnum frá fjármálastofnunum um gengistryggð útlán þeirra. Niðurstaða Hæstaréttar, og lagasetningin, leiðir til einna bestu sviðsmyndar sem teiknuð hefur verið fyrir bankakerfið. Þannig var sú dekksta, ef vextir gengistryggðu lánanna héldust óbreyttir, um 350 milljarðar króna.

Árni Páll býst við að frumvarpið verði lagt fyrir þingheim í byrjun næsta mánaðar. Þar til næsta þing hefjist mun ráðuneytið „binda lausa enda frumvarpsins“.