Kostnaður BP vegna olíulekans í Mexíkóflóa er orðinn meiri en 6 milljarðar bandaríkjadalir. Að sögn fyrirtækisins nemur heildarkostnaður 6,1 milljörðum bandaríkjadala.

Olíulekinn hefur verið hrein martröð fyrir olíurisann BP. Meðal þess sem fyrirtækið hefur þurft að greiða fyrir vegna lekans eru aðgerðir við hreinsun, lokun holunnar og borun nýrra hola. Þá greiddi fyrirtækið 319 milljónir dala til þeirra sem orðið hafa fyrir skaða vegna lekans.

Í dag vinna um 31 þúsund manns við að draga úr skaða olíulekans. Þann 15. júlí síðastliðinn tókst að stöðva lekann. Þá hafði jafngildi um 4,9 milljóna olíutunna lekið í sjóinn á 87 dögum. BP telur að aðgerðir þeirra til að stöðva lekann hafi borið árangur og að holan sé nú lokuð.

Hlutabréfaverð hækkað

Hlutabréfaverð olíurisans BP hefur hækkað töluvert eftir að því tókst að stöðva lekann. Frá því að upp komst um lekann hefur hlutabréfaverð fyrirtækisins þó snarlækkað og lækkaði markaðsvirði fyrirtækisins um 50% á meðan olía lak stjórnlaust í Mexíkóflóa. Hlutabréfaverð í dag stendur í 436 centum, sem er nokkur hækkun frá því í júlí þegar verð á hlut var um 300 cent.