Hlutabréfaverð breska olíurisans BP hefur ekki verið lægra í 14 ár en félagið lækkaði um 12,85% í liðinni vikunni. Ástæða lækkunarinnar er sú að  illa gengur að koma í veg fyrir lekann í Mexikoflóa og kostnaður fyrirtækisins við björgunaraðgerðir er kominn í 2,35 milljarða dollara samkvæmt vikulegum markaðsfréttum Íslenskra verðbréfa. Þar kemur einnig fram að  Bloomberg fréttaveitan segi að þessi kostnaður geti numið nær 40 milljörðum dollara þegar upp er staðið.

Í markaðsfréttum Íslenskra verðbréfa segir að þaðhafi ekki ríkt mikil bjartsýni á markaði í síðustu viku og lækkuðu flest allar hlutabréfavísitölur heims. Fjárfestar óttist skuldakreppu margra Evrópuríkja og að efnahagsbati heimsins sé byggður á veikum grunni.

Kína slakar á gengisstýringu

Alþýðubanki Kína hefur slakað aðeins á gengisstýringu sinni eftir mikinn þrýsting frá Bandaríkjunum og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. „Þetta er gert í þeirri von að júanið muni styrkjast en genginu hefur markvisst verið haldið niðri frá því lánsfjárkreppan skall á árið 2008," segir í fréttum Íslenskra verðbréfa.

„Með lágu gengi hefur samkeppnishæfni framleiðslu- og útflutningsiðnaðar í landinu verið mjög hagstæður. Verð á innfluttum vörum er að sama skapi óhagstætt. Með því hefur gjaldeyrisforði Kína stækkað gríðarlega mikið."