FL Group varði 790 milljónum króna til að kanna yfirtöku á enska fyrirtækinu Inspired Gaming Group og taldi það 62 milljarða virði í desember, að því er segir í frétt RÚV. Nú er markaðsvirði fyrirtækisins hins vegar tæpir 7 milljarðar, en FL Group hætti við yfirtökuna og sagði markaðstæður ekki hafa þótt hagstæðar. FL Group er í dag stærsti hluthafi Inspired.

Á aðalfundi FL Group í vetur var stjórn félagsins krafin um upplýsingar um kostnað þess að kanna hugsanlega yfirtöku á Inspired. Í svari stjórnarinnar kom fram að beinn útlagður kostnaður félagsins vegna þessa hafi verið 790 milljónir króna, samkvæmt frétt RÚV.

Inspired segjast vera að reyna að safna 40 milljónum punda frá hluthöfum til að fjármagna vöxt kjarnastarfsemi og til að greiða kostnað við að hætta starfsemi félagsins sem tengist veitingastöðum og börum.

Inspired á meira en 82.000 spilakassa í Bretlandi og rúmlega 15.000 í öðrum löndum. Það vinnur nú að því að skipta út gömlu kössunum fyrir nýrri sem innihalda meira úrval leikja.

FL Group vill koma eftirfarandi á framfæri vegna fréttarinnar:

Vegna fréttar RÚV um fyrirhugaða yfirtöku FL Group á breska fyrirtækinu Inspired Gaming Group síðastliðið haust, þar sem því er haldið fram að FL Group hafi talið Inspired 62 milljarða króna virði í desember síðastliðnum, vill FL Group taka fram að þegar FL Group hætti við yfirtöku á Inspired þann 19. desember 2007 var markaðsverðmæti Inspired um 22 milljarðar króna, miðað við skráð gengi félagsins í kauphöllinni í London.“