*

fimmtudagur, 2. desember 2021
Innlent 1. janúar 2010 11:33

Kostnaður vegna öldrunar hleðst upp

Ritstjórn

Kostnaður vegna fjármálakreppunnar eru smámunir í samanburði við þann kostnað sem lendir á ríkissjóðum þróaðra ríkja vegna fjölgunar aldraðra á komandi áratugum. Þetta er niðurstaða skýrslu Alþjóða gjaldeyrissjóðsins (AGS) sem birtist fyrr á þessu ári og gert er grein fyrir á heimasíðu Samtaka atvinnulífsins.

Þar er bent á að Alþjóðlega fjármálakreppan hafi haft mikil áhrif á opinber fjármál í flestum ríkjum. Skatttekjur hafa dregist saman, gjöld aukist, fjármálafyrirtæki fengið mikinn fjárhagslegan stuðning og flest hafa þau gripið til sérstakra örvunaraðgerða fyrir efnahagslífið. Þessir atburðir og aðgerðir hafa valdið miklum hallarekstri hins opinbera og meiri skuldasöfnun en nokkru sinni eftir síðari heimsstyrjöld. Að auki á þessi þróun sér stað þegar framundan er alvarlegur þrýstingur á fjármál hins opinbera á komandi árum í flestum ríkjum vegna fjölgunar aldraðra og fækkunar fólks á vinnualdri.

Fjöldi eftirlaunaþega tvöfaldast 

Á næstu fjórum áratugum mun fjöldi íbúa á eftirlaunaaldri í Evrópu tvöfaldast í hlutfalli við fólk á vinnualdri. Þessar breytingar á íbúasamsetningu munu auka útgjöld verulega til heilbrigðis- og lífeyrismála. Framkvæmdastjórn ESB hefur áætlað að kostnaðaraukinn muni að jafnaði nema 3,4% af landsframleiðslu árlega, þ.a. 2,3% vegna lífeyris og 1,1% vegna heilbrigðismála og umönnunar aldraðra. Í Bandaríkjunum hefur aukinn kostnaður vegna fjölgunar aldraðra verið áætlaður á bilinu 4,3% til 6,1% af landsframleiðslu árlega á næstu fjórum áratugum.

Kostnaður vegna kreppunnar er áætlaður nema 35% af eins árs landsframleiðslu að meðaltali í 20 stærstu iðnríkjunum samanborið við það að núvirtur kostnaður vegna breyttrar aldurssamsetningar er áætlaður 400% af landsframleiðslu að meðaltali. Áhrifin af breyttri íbúasamsetningu á opinber fjármál eru þannig áætluð hafa 11 sinnum meiri áhrif en skuldaaukning vegna yfirstandandi fjármálakreppu. Mestu áhrifin af breyttri aldursamsetningu á opinber fjármál eru talin verða í Kanada, Kóreu, Spáni og Bandaríkjunum, en þau nema 5-7 faldri landsframleiðslu í þessum ríkjum segir í samantekt SA.