Heildarkostnaður fjárfestinga vegna stækkun álversins í Straumsvík og uppbyggingar Búðarhálsavirkjunar er rúmlega 85 milljarðar króna. Það er um 5,5% af landsframleiðslu og dreifist kostnaðurinn yfir 2-3 ára skeið, að því er segir í nýjum markaðspunti frá greiningardeild Arion banka.

„Eins og komið hefur fram í fréttum nýverið mun Rio Tinto Alcan fjárfesta fyrir ríflega 60 ma.kr. vegna uppfærslu á búnaði og breytingu á framleiðsluferli álversins í Straumsvík. Framleiðslugeta fyrirtækisins mun aukast um 20% þegar framkvæmdum á að ljúka í árslok 2012 - eða úr 189 þúsund tonnum af áli í 220 þúsund tonn. Áætlað er að Búðarhálsvirkjun sjái fyrirtækinu fyrir þeirri viðbótarorku sem á þarf að halda en áætlað er að kostnaður við virkjunina verði í kringum 26 milljarðar króna. Heildarkostnaður vegna þessara fjárfestinga er því rúmlega 85 ma.kr. eða um 5,5% af landsframleiðslu og dreifist kostnaðurinn yfir 2-3 ára skeið.“

Breytt hagspá

Vegna þess að umfang framkvæmdanna verður meira en fyrri áætlanir gerðu ráð fyrir hefur greiningardeildin breytt hagvaxtarspá sinni lítillega. Segir að endurskoðunin breyti þó ekki heildarmyndinni og áfram sé gert ráð fyrir töluverðum slaka í hagkerfinu á næstu árum.

„Þrátt fyrir að fyrirhugaðar framkvæmdir séu ekki umfangsmiklar samanborið við fyrri stóriðjutímabil þá eru þær mikilvægar við hið lága fjárfestingastig sem nú ríkir – en til samanburðar ná þessar framkvæmdir að vera nálægt helmingi af heildarfjárfestingu í landinu á þessu ári. Gróflega má áætla að hagvaxtaráhrifin séu rúmlega 16 ma.kr. á ári en það þýðir t.d. 1% viðbótarhagvöxtur á næsta ári. Gert er ráð fyrir að 1300 ársverk skapist yfir framkvæmdatímann, eða sem nemur rúmlega 600 ársverkum á ári.“