Kostnaður við fyrirhugað stjórnlagaþing gæti numið á bilinu 1.700 til 2.100 milljónum króna samkvæmt mati fjármálaráðuneytisins.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Birgi Ármannssyni, þingmanni Sjálfstæðisflokksins sem nýlega tók saman áætlaðan kostnað vegna stjórnlagaþings, sem gert er ráð fyrir í frumvarpi forsætisráðherra, fjármálaráðherra, varaformanns Framsóknarflokksins og formanns Frjálslynda flokksins.

Í fyrri samantekt Birgis var gert ráð fyrir að kostnaður við stjórnlagaþing myndi nema minnst 1.200 til 1.500 milljónum króna.

Þá kemur fram að á fundi sérnefndar um stjórnarskrármál í morgun hafi komið fram greinargerð og kostnaðarmat frá fjármálaráðuneytinu um þetta efni og voru meginniðurstöðurnar eftirfarandi:

Stjórnlagaþing sem starfar í 10 mánuði: 1.176 milljónir króna.

Stjórnlagaþing sem starfar í 18 mánuði: 1.731,6 milljónir króna.

Stjórnlagaþing sem starfar í 24 mánuði: 2.148 milljónir króna.

Þá segir Birgir að samkvæmt frumvarpinu sé gert ráð fyrir að stjórnlagaþingið starfi í 18 mánuði, en því er heimilt að stytta eða framlengja tímann, mest þó í 6 mánuði.

„Í ljósi þess hve verkefni stjórnlagaþings verður viðamikið, og hér er um fullkomið nýmæli að ræða sem á sér engin fordæmi, er full ástæða til að ætla að starfstíminn verði aldrei undir 18 mánuðum og líklega mun nær 24 mánuðum,“ segir Birgir og bætir við að kostnaðurinn verði því að öllum líkindum á bilinu 1.700 til 2.100 milljónir króna.

„Hér er auðvitað um gríðarlegan kostnað að ræða og full ástæða til að krefja forráðamanna ríkisstjórnarinnar svara um það hvort þeim sé í raun og veru alvara með að leggja út í útgjöld af þessu tagi á sama tíma og niðurskurðar er þörf á öllum sviðum ríkisrekstrarins, þ.á.m. í velferðar-, heilbrigðis- og menntamálum,“ segir Birgir.