*

laugardagur, 18. janúar 2020
Innlent 29. júlí 2013 15:32

Kostun menningarviðburða báðum aðilum til gagns

Framlög frá fyrirtækjum og öðrum einkaaðilum eru oft miklu hærri en sést í bókhaldi stórra menningarviðburða.

Ritstjórn

Hanna Styrmisdóttir, listrænn stjórnandi Listahátíðar segir að nú í vetur hafi verið afar erfitt framanaf að nálgast styrktaraðila. Það hafi þó ræst vel úr kostunarsamningum Listhátíðar að lokum og góður árangur náðst. Hátíðin hafi mótað heildstæða stefnu í  samstarfi sínu við atvinnulífið þar sem áhersla sé lögð á gagnkvæman hag beggja aðila.

Þetta kemur fram í seinni grein Þórunnar Sigurðardóttur í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins um kostun menningarviðburða fyrir og eftir hrun. Í grein Þórunnar kemur fram að ein af þeim menningarstofnunum sem hvað lengst hefur náð í gegnum tíðina við öflum fjármagns frá fyrirtækjum er Listahátíð í Reykjavík og kemur þar til umfangsmikil alþjóðleg tenging svo og víðfeðm innlend starfsemi.

Hún talar við Hönnu Styrmisdóttur vegna þessa:

„Ég hef lagt áherslu á það í mínum samtölum við bakhjarla að kanna með hvaða öðrum hætti Listahátíð geti komið til móts við þarfir þeirra fyrirtækja, með fræðslu fyrir viðskiptavini og starfsmenn t.d., en slík nálgun er lítið þróuð hér. Þar er mikið starf framundan. Fræðsluhlutverk Listahátíðar er óumdeilt þó að það sé ekki í sama farvegi og leikhúsanna eða listasafnanna. En í bakhjarlasamningum verðum við að geta komið til móts við ólíkar þarfir fyrirtækja um leið og við gætum þess að samstarfið sé báðum aðilum til gagns. 

Við leggjum mikla vinnu í fjáröflun hjá fyrirtækjum og leggjum áherslu á að Listahátíð sé til fyrirmyndar í þessum efnum og tengist öllum atvinnugreinum. Þannig reynum við að fá fyrirtæki til liðs við okkur úr sem flestum greinum, sjávarútvegsfyrirtæki, orkufyrirtæki, banka, prentsmiðjur, flutningafyrirtæki o.s.frv. Það er liður í því að efla tengsl Listahátíðar við alla hluta samfélagsins því að starfsemi hennar á erindi við samfélagið allt. Við getum boðið fyrirtækjum talsverðan sýnileika og tengingu við alþjóðlega starfsemi og frumkvöðlastarf þótt við gætum þess að slíkur sýnileiki fari ekki úr böndum, og sé öllum til sóma, bakhjörlum, listamönnum og hátíðinni," sagði Hanna.

Ítarlega umfjöllun Þórunnar má lesa í síðustu tveimur tölublöðum Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir tölublöð hér að ofan.

Stikkorð: kostunaraðilar