Í maí á þessu ári verður Gunn­ar Bragi Sveinsson búinn að gegna embætti utanríkisráð­ herra í tvö ár. Nú, þegar ráð­herratíð hans er næstum því hálfnuð, segir hann ráðuneyt­ið hafa lagt aukinn kraft í utanrík­isviðskipti með viðræðum um nýja fríverslunarsamninga.

Gunnar Bragi er menntaður í atvinnulífsfélagsfræði frá Háskóla Íslands og starfaði áður m.a. fyrir Kaupfélag Skagfirðinga, Íslensku auglýsingastofuna og Skeljung auk þess sem hann gegndi stöðu framkvæmdastjóra Ábæjar samhliða ýmsum trúnaðarstörfum fyrir hönd Framsóknarflokksins. Þegar Gunnar var skipaður var takmörkuð alþjóðleg reynsla hans gagnrýnd en hann segir að hann hafi verið vel undir starfið búinn þrátt fyrir það.

„Þetta er kannski persónubundið en ég held að það hafi verið ákveðinn kostur að ganga inn í þetta ráðuneyti ekkert sérstaklega mótaður af einhverjum fyrirframgefnum stefnum eða hugmyndum eða einhverju slíku,“ segir Gunnar. „Það eina sem ég var klár á var að ég vildi ekki ganga inn í Evrópusambandið. Ég held að það hafi verið ákveðinn kostur vegna þess að þegar þú kemur nýr inn í ráðuneyti þá spyrðu spurninga, þá kynnir þú þér skipulagið. Við áttuðum okkur t.d. á því að við vildum breyta skipulaginu vegna þess að okkur fannst það ekki passa við nútímann og áherslur okkar. Þannig að mér leið mjög vel þegar ég gekk hérna inn. Ég var mjög stoltur af því að hafa verið treyst fyrir þessu ráðuneyti. Ég áttaði mig reyndar ekki alveg á því hversu stórt verkefni þetta er.

En ég er með mjög gott fólk mér til aðstoðar sem hefur gert lífið miklu einfaldara. Ég hef sett mér ákveðin mark- mið sem eru flest öll komin í gang og vonast til þess að á miðju kjörtímabili geti ég litið um öxl og sagst hafa hrint því í framkvæmd sem ég ætlaði mér í upphafi. Ég held að það stefni í að það gangi ágætlega.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .