Jafnræðis er ekki gætt í verðkönnunum ASÍ og þær gefa ekki rétta mynd af dagvörumarkaðnum að því er segir í yfirlýsingu frá Kosti, sem er í eigu Jóns Geralds Sullenberger. Þar segir jafnframt að í könnunum ASÍ séu borin saman ólík vörumerki og einungis horft til verðs án þess að tillit sé tekið til gæða. Yfirlýsingin í heild sinni fylgir hér á eftir:

„Kostur hefur ekkert á móti faglegum verðkönnunum þar sem jafnræði ríkir milli verslana. Því fer hins vegar fjarri að jafnræðis sé gætt í verðkönnunum ASÍ og þær gefa ekki rétta mynd af dagvörumarkaðnum.

Það er frumskilyrði í verðkönnunum að bera saman verð á sömu vöru og sama vörumerki. Kostur hefur hins vegar oft bent á að í könnunum ASÍ eru borin saman ólík vörumerki og einungis horft til verðs án þess að tillit sé tekið til gæða. Þær vörur sem verið er að kanna á í öllum tilvikum að fara með á afgreiðslukassa, skanna þær. Réttur og eðlilegur verðsamanburður fæst aðeins með því að bera saman kassakvittanir.

Það er líka eðlilegt að verðkannanir séu gerðar í öllum dagvöruverslunum en ekki einungis þeim verslunum sem ASÍ velur að heimsækja hverju sinni. Fagleg vinnubrögð eru forsenda góðra neytendavarna. Geðþóttaákvarðanir mega aldrei ráða því hvaða upplýsingum komið er til neytenda.

Vörur Kosts standast fyllilega verðsamanburð. Verðmerkingar á hillum verslunarinnar eru greinilegar og dagsettar. Kostur hvetur verðlagsráð ASÍ til að endurskoða vinnubrögð sín þannig að sátt skapist um faglega unnar og upplýsandi verðkannanir neytendum til hagsbóta.“