*

mánudagur, 25. janúar 2021
Innlent 21. febrúar 2018 13:38

Kostur í þrot

Fyrirtæki Jóns Gerald Sullenberger hefur verið tekið til gjaldþrotaskipta en verslunin Kostur hætti starfsemi í desember.

Ritstjórn
Gísli Freyr Valdórsson

Félagið 12.12.2017, sem áður hét Kostur, hefur verið lýst gjaldþrota. Var búið tekið til gjaldþrotaskipta þann 15. febrúar síðastliðinn. Nafnið á félaginu nú er tekið af dagsetningunni sem verslunin lokaði húsakynnum sínum við Dalsbraut í Kópavogi eftir átta ára rekstur.

Lífeyrissjóður verzlunarmanna hugðist fara fram á gjaldþrot félagsins vegna vangoldinna iðgjalda í sjóðinn að því er Viðskiptablaðið greindi frá á sínum tíma. Jafnframt þurfti VR að aðstoða starfsmenn vegna vangoldinna launa, en Jón Gerald Sullenberger stofnandi og framkvæmdastjóri verslunarinnar hafði lýst því yfir að ekki yrðu um frekari launagreiðslur úr félaginu að ræða.

Jón Gerald Sullenberger var stærsti eigandi Kosts, en hann átt 46,6% hlut í fyrirtækinu. Þá átti Tómas Gerald Sullenberger, sonur Jóns, 32,5% eignarhlut að því er segir í frétt Viðskiptablaðsins um hagnað fyrirtækisins fyrir árið 2014.