Þrotabú 12.12.2017 ehf., sem áður hét Kostur, hefur höfðað riftunarmál á hendur bandaríska fyrirtækinu Nordica Inc., en Jón Gerald Sullenberger er annar af eigendum Nordica Inc. Að sögn Konráðs Jónssonar, lögmanns Nordica Inc. og Jóns Geralds, þá vill þrotabúið fá rift greiðslum sem 12.12.2017 greiddi inn á reikning Nordica Inc.

„Þetta er riftunarmál sem verið er að höfða gegn umbjóðendum mínum og þeir ætla að grípa til varna í málinu. Málatilbúnaðurinn mun vera sá að þeir eigi að hafa rýrt eignir búsins með því að greiða þessa reikninga frá Nordica Inc. Mínir umbjóðendur höfðu ekki hugmynd um að það væri komin fram beiðni um gjaldþrotaskipti á hendur búinu þegar þessar greiðslur voru framkvæmdar. Þetta voru greiðslur á reikningum sem höfðu verið gefnir út af Nordica, en Nordica var stærsti birgi Kosts. Þessir reikningar voru gefnir út til Kosts og þetta voru greiðslur á þeim reikningum. Þetta mál er þó ekki eins klippt og skorið og halda mætti í fyrstu varðandi þessar greiðslur. Kostur var að glíma við það á tímabilinu áður en það var tekið til gjaldþrotaskipta, að það voru töluverðir sjóðir í eigu félagsins sem voru því óaðgengilegir. Það er löng saga að segja frá því. Það var vitaskuld unnið hart að því að halda félaginu í rekstri, en það verður því að líta á þessar greiðslur í samhengi við þetta hefta aðgengi að sjóðunum. Þetta mál munum við kryfja til mergjar í greinagerð okkar og hægt verður að tala um það nánar þegar hún liggur fyrir.“

Greiðslurnar sem þrotabúið vill fá rift voru fjórar talsins og samtals að fjárhæð 13.575.163 krónur. Greiðslurnar fóru fram á tímabilinu 20. desember 2017 til 12. janúar 2018.

Kröfu um málskostnaðartryggingu hafnað

„Við upptöku málsins fórum við fram á að þrotabúið myndi leggja fram málskostnaðartryggingu, enda er það í eðli sínu ógjaldfært og ekki til eignir í búinu til að standa undir málsrekstri sem þessum. Svona málsrekstur er mjög dýr og til marks um það rukkar skiptastjórinn 36.580 krónur á tímann. Búið er núna búið að vera í skiptum í um það bil tvo mánuði og nú þegar er skiptastjórinn búinn að taka sér um það bil 3,4 milljónir króna í þóknun. Þetta er því fljótt að koma. Dómarinn féllst ekki á beiðni okkar um málskostnaðartryggingu og við erum ennþá að skoða hvort við munum kæra þá niðurstöðu til Landsréttar. Það er ekki búið að gefa það upp hvað við höfum langan frest til að skila greinagerð, en ég á von á því að fresturinn renni út í september eða október. Við eigum eftir að vinna þessa greinagerð og því á okkar málatilbúnaður eftir að koma betur í ljós. Við eigum eftir að skoða almennilega stefnuna sem var lögð fram og gögnin með, áður en við getum lagt fram fullbúna greinagerð“ segir Konráð.

Gjaldþrota í febrúar

Verslunin Kostur hætti starfsemi í lok síðasta árs. Jón Gerald Sullenberger stofnaði verslunina og var hún starfrækt í átta ár. Í yfirlýsingu sem Jón Gerald gaf út þar sem ákvörðun um lokun verslunarinnar var kynnt, sagði hann komu Costco á markað og harðnandi samkeppni vegna þess, vera eina af ástæðum þess að ákveðið hafi verið að loka. Eftir lokun verslunarinnar var nafni rekstararfélags verslunarinnar breytt í 12.12.2017, en nafnið er tekið af dagsetningunni sem verslunin lokaði. 12.12.2017 var svo tekið til gjaldþrotaskipta þann 15. febrúar síðastliðinn.