Endurskoðunarfyrirtækið KPMG í Bandaríkjunum rak í gær einn meðeiganda sinn í Los Angeles eftir að í ljós kom að hann hafði veitt ónefndum manni innherjaupplýsingar um fyrirtæki sem hann hafði á sinni könnu. Þessi maður á svo að hafa notað upplýsingarnar í hlutabréfaviðskiptum með bréf nokkurra fyrirtækja á vesturströnd Bandaríkjanna.

KPMG gaf hvorki upp það hvaða meðeigandi átti í hlut eða hvaða fyrirtæki það voru sem hann veitti innherjaupplýsingar um.

Í frétt á vefsíðu New York Times í dag kemur þó fram að búist sé við því að Herbalife greini frá því í dag að KPMG hætti að sinna endurskoðun fyrir fyrirtækið og eru þessar tvær fréttir tengdar saman þar. Má því gera ráð fyrir því að Herbalife hafi verið eitt af þeim fyrirtækjum sem meðeigandinn fyrrverandi veitti félaga sínum upplýsingar um. Viðskipti með hlutabréf Herbalife hafa verið stöðvuð.