KPMG og Háskólinn í Reykjavík hafa gert með sér samstarfssamning um vöxt og viðgang kennslu og rannsókna á sviði reikningshalds og endurskoðunar við HR.

Markmið samningsins er að efla reikningshald og endurskoðun sem fag á Íslandi. Stofnuð verður KPMG kennslu- og rannsóknarstaða í reikningshaldi og endurskoðun (e. The KPMG Chair of Accounting) við viðskiptadeild Háskólans í Reykjavík. Í því felst að á hverjum tíma er fastráðinn kennari HR kenndur við KPMG stöðuna.

Kappkostað verður að vekja áhuga ungs fólks á námi í þessum fræðum og þeim starfsmöguleikum sem þau kunna að bjóða. KPMG styrkir kennslu- og rannsóknarstöðuna í reikningshaldi og endurskoðun í viðskiptadeild.

Þorlákur Karlsson, forseti viðskiptadeildar Háskólans í Reykjavík sagði við undirritun þessa samnings að hann fagnaði af heilu hjarta þessum áfanga, sem án vafa yrði til að efla og kennslu og rannsóknir í reikningshaldi og endurskoðun á Íslandi til mikilla muna.