KPMG er komið í hóp þeirra fyrirtækja sem hafa hlotið Jafnlaunavottun VR og er því m.a. komið með staðfestingu á því að búið sé að kerfisbinda launaákvarðanir, koma upp jafnlaunakerfi samkvæmt kröfum ÍST85:2012 jafnlaunastaðals og að nú verði kerfisbundið fylgst með því hjá fyrirtækinu að ekki sé verið að mismuna starfsfólki sem vinnur sömu eða jafnverðmæt störf.

Árni Leósson, forstöðumaður Þróunarsviðs VR, afhenti  Jóni  S. Helgasyni framkvæmdastjóra KPMG,  vottunarskírteinið þriðjudaginn 11. júní 2013. Við þetta tilefni voru saman komnir sviðstjórar og launafulltrúi fyrirtækisins og fögnuðu þessum merka áfanga.

Árni sagði í tilkynningu:

„Það er mér afar ánægjulegt hversu vel  fyritæki hafa tekið í þetta nýja vopn okkar í jafnréttisbaráttunni,  Jafnlaunavottun VR, en nú hafa um 40 fyrirtæki og stofnanir sótt um.  Þessi fyrirtæki  stuðla nú að því með beinum hætti  að eyða kynbundnum launamun í landinu.“

Á myndinni eru þau Alexander Eðvardsson, sviðsstjóri skatta- og lögfræðisviðs; H.Ágúst Jóhannesson, sviðsstjóri fyrirtækjasviðs; Auður Þórisdóttir, sviðsstjóri endurskoðunarsviðs; Jón S. Helgason, framkvæmdastjóri; Andrés Guðmundsson, starfsmannastjóri; Ólafía Magnúsdóttir, launafulltrúi; Eyvindur Albertsson, sviðsstjóri uppgjörssviðs og Árni Leósson sviðsstjóri Þróunarsviðs VR.