Heildartekjur fjarskiptastarfsemi á Íslandi árið 2006 námu rúmlega 33 milljörðum króna samkvæmt nýrri skýrslu Póst-og fjarskiptastofnunar (PFS) og jukust um rúma sex milljarða frá árinu 2004.

Skýrslan var tilbúin í loks liðins árs en birting hennar dróst þar sem Og fjarskipti ehf. töldu PFS ekki heimilt að birta tilteknar upplýsingar sem þar er að finna og kærðu ákvörðun PFS um birtinguna til úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála.

Nefndin sendi frá sér úrskurð sinn þann 30. maí sl. þar sem ákvörðun PFS er staðfest og birting skýrslunnar leyfð.

Farsímarekstur um 47% af tekjum

Skýrslan nær yfir þriggja ára tímabil, 2004-2006. Tæpur helmingur af heildartekjum af fjarskiptastarfsemi hérlendis árið 2005 á rætur að rekja til farsímareksturs, eða tæplega 15,5 milljarðar króna. Það er aukning upp á um 4,3 milljarða frá 2004.

Fastanetið skilaði 7,7 milljörðum í tekjur árið 2006, 400 milljónum króna minna en tveimur árum fyrr, gagnaöflun og internetþjónusta skilaði rúmum 7 milljörðum í tekjur árið 2006, tæpum 3 milljörðum meira en árið 2004, og aðrar tekjur námu um 2,9 milljörðum króna, hálfum milljarði minna en árið 2004.

Í prósentum talið skilaði farsímarekstur 47% af heildartekjum í fjarskiptastarfsemi árið 2006, fastanetið skilaði 23% af tekjum, gagnaflutningar og internetþjónusta skilaði 21% af tekjum og aðrar tekjur námu 9%

Fjárfestingar eftir farsímastarfsemi í árslok 2006 voru um 5,5 milljarði króna, heldur minna en árin á undan, eða 5,7 milljörðum árið 2005 og 5,6 milljörðum árið 2004.

Mest var fjárfestingin í gagnaflutningum og internetþjónustu, um 2,5 milljarðar í árslok 2006, og um 2,1 milljarður í stoðsviðum.

Þegar markaðshlutdeild í farsímarekstri er skipt eftir fyrirtækjum kemur í ljós að árið 2006 hafði Síminn 59% markaðshlutdeild, Vodofone hafði 49% hlutdeild og Hive hafði 1% hlutdeild.

46 fyrirtæki á fjarskiptamarkaði

Í skýrslunni kemur fram að skráð fyrirtæki á fjarskiptamarkaði teljast 46 talsins, þeirra stærst Síminn hf., Og fjarskipti ehf. (Vodofone) og IP-fjarskipti ehf. (Hive).

Á listanum eru líka mörg fyrirtæki sem minna fer fyrir, svo sem Gagnaflutninganet Stykkishólmsbæjar og Gagnaveita Skagafjarðar, svo eitthvað sé nefnt.