Lögmannsstofan ehf. á Akureyri skilaði fjögurra milljarða króna kröfu Stapa lífeyrissjóðs í Straum fjórum dögum of seint en frestur til að lýsa kröfum í Straum rann út 18. júlí.

Eftir því sem næst verður komist voru birtar tvær auglýsingar um frestinn í Lögbirtingablaðinu og vegna mannlegra mistaka miðaði lögmannsstofan við síðari auglýsinguna og gaf sér þar með að fresturinn væri lengri en hann var.

Viðskiptablaðið náði ekki í forsvarsmenn lögmannsstofunnar við vinnslu þessarar fréttar til að fá það staðfest.

Ríkisútvarpið greindi upphaflega frá þessu máli í hádegisfréttum.

Von á fréttatilkynningu síðar í dag

Samkvæmt upplýsingum Viðskiptablaðsins hefur lögmannsstofunni verið falið að reyna að fá kröfuna samþykkta þrátt fyrir að hún hafi borist of seint. Gjaldþrotalög kveða á um samþykki þriggja fjórðu kröfuhafa til að slíkt geti gengið eftir.

Krafa lífeyrissjóðsins er, samkvæmt upplýsingum Viðskiptablaðsins, vegna innlána í Straumi en ágreiningur er þó um hana.

Kári Arnór Kárason, framkvæmdastjóri Stapa lífeyrissjóðs, vildi ekki tjá sig opinberlega um málið. Hann sagði von á fréttatilkynningu síðar í dag.