Greining Íslandsbanka telur að krafa ríkisbréfa muni almennt verða nokkru lægri að ári liðnu en raunin er nú. Upphallandi vaxtaferill ríkisbréfa sé kominn til að vera, enda séu skammtímavextir nálægt jafnvægisvöxtum og eðlilegt að fjárfestar fari fram á hærri ávöxtun til að mæta þeirri markaðsáhættu sem felst í eign á langtímabréfum.

Þetta kemur fram í yfirliti greiningardeildarinnar um horfur á skuldabréfamarkaði sem birt var í morgun.

Þá segir Greining Íslandsbanka að áhugi útlendinga jafnt sem innlendra fjárfesta hafi haldið skemmri enda ríkisbréfaferilsins niðri undanfarið og ætla megi að sú verði raunin áfram, svo lengi sem ekki dragi til tíðinda varðandi gjaldeyrishöftin.

„Afnám hafta getur hins vegar skapað umtalsvert framboð á eftirmarkaði og þrýst kröfu styttri ríkisbréfaflokkanna tímabundið töluvert upp. Ógerningur er þó að tímasetja slíka þróun,“ segir í yfirlit Greiningar.

„Styttri endi ríkisbréfaferilsins hefur undanfarið verið talsvert undir innlánsvöxtum Seðlabankans, og teljum við að sú gæti orðið raunin áfram. Innlánsvextir fjármálastofnana hafa farið lækkandi, enda búa flestar þeirra við gnægð lausafjár vegna mikilla innlána og tiltölulega lítilla útlána. Má segja að krafa styttri ríkisbréfaflokkanna endurspegli fremur væntingar um þróun þessara innlánsvaxta en vaxta Seðlabankans á næstunni.“

Þá segir greiningardeildin að með tíð og tíma sé líklegt að vextir styttri ríkisbréfanna taki að endurspegla betur vexti Seðlabankans, en á móti komi að greiningardeildin geri ráð fyrir að vextir Seðlabanka verði orðnir talsvert lægri að ári liðnu en nú er.

„Auk þeirrar óvissu sem snýr að afléttingu gjaldeyrishafta leikur enn verulegur vafi á hver útgáfa ríkisbréfa muni verða á næstu misserum,“ segir í yfirliti Greiningar Íslandsbanka.

„Líkt og stjórnvöld víða um heim þarf ríkissjóður á töluvert mikilli fjármögnun að halda á komandi misserum vegna verulegs halla á ríkisfjármálum. Sjóðurinn hefur talsvert svigrúm næsta kastið til að nýta sér hagstæðar markaðsaðstæður þar sem lausafjárstaða hans er rúm, en á endanum þarf hann þó að sækja töluvert fé til sparifjáreigenda enda ekki gert ráð fyrir að tekjujöfnuður ríkissjóðs verði jákvæður fyrr en árið 2013.“

Tímabundin kröfuhækkun íbúðabréfa

Þá segir í yfirlitinu að krafa íbúðabréfa hafi heldur þokast upp á við frá júníbyrjun, ef stysti flokkurinn er frátalinn.

„Við teljum að verðtryggða krafan muni hækka frekar eftir því sem mánaðartaktur verðbólgunnar hjaðnar með lækkandi sól,“ segir í yfirlitinu.

„Einkanlega á það við um HFF14, sem er afar næmur fyrir breytingum á mánaðartakti verðbólgunnar. Að mati okkar mun þessi hækkun þó verða hóflegri en var í upphafi ársins, enda minni sveifla í mánaðataktinum framundan en raunin var vetur er leið.“

Greining Íslandsbanka segir að takmarkað framboð muni einnig styðja við íbúðabréf en Íbúðalánasjóður lækkaði nýverið útgáfuáætlun sína og gerir nú ráð fyrir 15 – 19 milljarða króna útgáfu íbúðabréfa á seinni helmingi ársins. Þar við bætist raunar 18,5 milljarðar króna af bréfum í lengri flokkunum þremur sem Seðlabankinn hyggst selja á næstunni.

„Hins vegar er vandséð að mikið líf færist í útlán ÍLS næstu misserin og teljum við að útgáfa íbúðabréfa verði í minna lagi á næsta ári. Munur á framboði ríkisbréfa og íbúðabréfa er þannig líklegt til að auka á verðbólguálag umfram þær væntingar sem fjárfestar hafa til verðbólgu á næstu árum, líkt og við teljum að raunin hafi verið upp á síðkastið,“ segir í yfirliti Greiningar.