*

fimmtudagur, 29. júlí 2021
Innlent 20. júní 2021 16:03

Krafa sjóðanna fyrnd?

Deilt var um í dómsal það hvort hálfs milljarðs krafa lífeyrissjóða á hendur verðbréfafyrirtæki væri fyrnd eður ei.

Jóhann Óli Eiðsson
Haraldur Guðjónsson

Meint bótakrafa samlagshlutafélagsins Arev NII slhf. á hendur Arev verðbréfafyrirtæki gæti mögulega verið fyrnd. Umræddu bótamáli var stefnt fyrir dóm um miðjan desember 2019 og hverfðist aðalmeðferðin síðastliðinn fimmtudag um það hvort um kröfu um skaðabætur innan eða utan samninga væri að ræða. Í báðum tilfellum er fyrningarfresturinn vissulega fjögur ár en stofndagur kröfunnar er aftur á móti ekki sá sami.

Gunnar Sturluson, lögmaður Arev NII, byggði á því að þar sem Arev verðbréfafyrirtæki gaf sig út fyrir að vera fyrirtæki sem veitti ráðgjöf um fjárfestingar þá giltu reglur bótaréttarins um sérfræðiábyrgð fullum fetum. Af þeim sökum skipti ekki máli þótt samningur um eignastýringu hefði verið gerður enda gilti almennt um slíka sérfræðiábyrgð að réttur til bóta væri metinn eftir reglum um tjón utan samninga. Vitneskja um tjónið hefði fyrst legið fyrir í maí 2016 og krafan því ekki fyrnd þegar málinu var stefnt inn í desember 2019.

Reimar Snæfells Pétursson tók til varna fyrir hönd Arev og Jóns og taldi á móti að hér væri á ferð krafa sem ætti rót að rekja til samnings og því hefði fyrningarfrestur byrjað að líða þegar meint vanefnd hans hefði átt sér stað. Hafi það á annað borð gerst þá væri það tímamark í allra síðasta lagi haustið 2015 og það væri fyrir „skurðpunkt fyrningar“, það er fjórum árum áður en málið var höfðað. Kristín Edwald, lögmaður Sjóvá í málinu en Arev hafði gilda stjórnendaábyrgðartryggingu hjá félaginu, tók undir þau rök í sinni umfjöllun.

Hver vissi hvað?

„Háttvirtur lögmaður Arev NII hefur byggt á því að hér sé á ferð krafa um skaðabætur utan samninga. Þótt að það sé ýmislegt sem mælir því í mót þá fæ ég ekki betur séð en að niðurstaðan verði sú sama,“ sagði Reimar. Benti hann á að í síðasta lagi á fundinum haustið 2015, þann fund sat meðal annars lögmaður á vegum félagsins, hefði fulltrúum fjárfestingaráðs að minnsta kosti mátt vera ljóst að fjárfestingin í Duchamp gengi ekki sem skyldi og að miklar líkur væru á að fjárfestingin hefði farið í skrúfuna. Þessu var Gunnar ósammála.

„Það var ekkert á þessum fundi sem gaf mönnum tilefni til að áætla að félagið væri órekstrarhæft enda var ákveðið að leggja því til meira fé eftir fundinn. Það er útilokað að hluthafar hefðu lagt meira fé í félagið ef þeir hefðu vitað eða mátt vita að peningarnir, sem þeir höfðu þegar greitt, væru að fullu farnir í súginn,“ sagði Gunnar í ræðu sinni. Féð hefði verið greitt í þeirri góðu trú að fulltrúar Arev væru að ráða þeim heilt.

Í málinu er einnig deilt um það hvaða áhrif stjórnskipan AN2 kann að hafa á upphaf fyrningarfrestsins en málið er höfðað af félaginu sjálfu en ekki hluthöfum þess. Byggðu Reimar og Kristín á því að ráðsmenn í fyrrnefndum ráðum, sem einnig höfðu sérfræðiþekkingu, hefðu átt að kveikja á perunni og vitneskja hluthafanna um mögulegt tjón ætti að taka mið af því. Í það minnsta hefði þeim borið að gera hluthöfum viðvart. Gunnar sagði á móti að því færi fjarri að þau yrðu samsömuð hluthöfunum sjálfum.

„Fjárfestingaráðið hafði engar heimildir til að taka stórar ákvarðanir, á borð við að fara í dómsmál eða gera kröfu um afslátt, heldur var það vald á hendi þess sem ritaði firmað, það er stefnda Jóns,“ sagði Gunnar. Af þeim sökum hefði félaginu fyrst verið mögulegt vorið 2016, þegar honum hafði verið vikið frá, sem félagið hefði haft kost á að sækja bætur.

„Önnur skýring felur í sér að félagið sjálft verður látið bera hallann af því að stefndi Jón hafi verið við stjórnvölinn og ekki tekið ákvörðun um að fara í dómsmál við sjálfan sig og sitt félag,“ sagði Gunnar. Það sæi það hver maður að slíkt gengi ekki upp.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.