Ávöxtunarkrafa verðtryggðra skuldabréfa hjá viðskiptabönkunum hefur hækkað verulega, bæði frá því að krafan náði lágmarki á þessu ári, sem og í októbermánuði. Nú um mundir er krafan á lengstu verðtryggðu bréf bankanna, sem eru á gjalddaga eftir um tíu ár, tæplega eitt prósent. Það er sambærilegt og í upphafi marsmánaðar þegar meginvextir Seðlabankans voru 2,75%. Í ágúst, þegar krafan á þessum bréfum var í lægstu lægðum, var hún 0,1-0,2% og hefur hækkað skarpt síðan þá.

Til að mynda stóð krafa á skuldabréfaflokk ARION CBI 29 í 0,33% í lok september en um mánuði síðar er hún ríflega 0,9%. Ávöxtunarkrafa verðtryggðra skuldabréfa Íslandsbanka sem eru á gjalddaga 2028 var neikvæð í lok september en er nú ríflega hálft prósent. Ávöxtunarkrafa verðtryggðra skuldabréfa Landsbankans sem eru á gjalddaga 2028 fór á áðurnefndu tímabili, úr 0,39% í 0,95%. Í október hefur ávöxtunarkrafa óverðtryggðra skuldabréfa hjá viðskiptabönkunum með gjalddaga árin 2022-2023 hækkað að jafnaði um 20 punkta.

Fjármögnunarkostnaður leitt til hækkunar húsnæðisvaxta

Í lok síðustu viku greindi Viðskiptablaðið frá því að Íslandsbanki hygðist hækka vexti um allt að 0,35 prósentustig. Ástæðan var sögð vera hærri fjármögnunarkostnaður og var vísað til þróunar á ávöxtunarkröfu á skuldabréfamarkaði. Viðskiptablaðið spurði hina tvo viðskiptabankana sömu spurningar. Í svari Landsbankans kemur fram að bankinn meti sífellt vaxtastig á innlánsreikningum og útlánum. Meðal annars með hliðsjón af vöxtum Seðlabankans, vöxtum á markaði og öðrum fjármögnunarkjörum en ekki sé greint frá vaxtaákvörðunum fyrr en þær liggja fyrir. Arion banki sagðist ekki vera að skoða vaxtabreytingu, að svo stöddu.

Vert er að taka fram að þrátt fyrir hækkun vaxta hjá Íslandsbanka hafa lánskjör lækkað talsvert það sem af er ári. Eftir hækkun vaxta er Íslandsbanki enn að bjóða hagstæðustu húsnæðislánin í þeim flokkum sem hækkunin náði til. Mestu munar á föstum verðtryggðum vöxtum þar sem vextir Íslandsbanka eru 2,05% en Landsbankinn er með næsthagstæðustu vextina eða 2,4%, samkvæmt vef Aurbjargar.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .