Hlutabréf Icelandair hækkuðu mest í mestri veltu í viðskiptum dagsins en slíkt hið sama gerðist á föstudag í síðustu viku. Bréf flugfélagsins hækkuðu um tæplega þrjú prósent í ríflega 500 milljóna króna veltu og standa í 1,4 krónum. Alls hækkuðu hlutabréf fjórtán félaga sem skráð eru á aðalmarkaði Kauphallar Íslands. Heildarvelta nam 3,6 milljörðum króna og viðskipti voru tæplega 400.

Hlutabréf TM hækkuðu næst mest eða um 2,1% og bréf Eimskips um tæplega tvö prósent. Hlutabréf Eikar hækkuðu um 1,9% en þau hækkuðu um tæplega þrjú prósent í kjölfar tilkynningar Seðlabanka Íslands sem lækkaði vexti um 25 punkta í dag.

Hlutabréf þriggja félaga lækkuðu í dag. Mest lækkuðu bréf Marel um hálft prósent í tæplega 330 milljóna króna veltu.

Hlutabréf Icelandic Seafood héldust óbreytt í tíu krónum. Fyrirtækið birti árshlutauppgjör eftir lokun markaða í dag en það tapaði 57 milljónum króna á þriðja ársfjórðungi 2020.

Veruleg velta á skuldabréfamarkaði

Alls nam velta á skuldabréfamarkaði 15,3 milljörðum króna í 174 viðskiptum. Mest velta var með óverðtryggð ríkisskuldabréf sem eru á gjalddaga 2028 eða fyrir 2,7 milljarða króna. Ávöxtunarkrafa þeirra bréfa hækkuðu um þrjá punkta og er nú 2,94%.

Mest lækkaði ávöxtunarkrafa skuldabréfa Reykjavíkurborgar sem eru á gjalddaga 2035 eða um 25 punkta. Bréfin, sem eru óverðtryggð, bera nú 3,65% ávöxtunarkröfu en í upphafi árs var krafan 4,2%. Ávöxtunarkrafa ríkisskuldabréfa á gjalddaga 2023 lækkaði um 22 punkta og er krafan nú 1,66%. Bréfið var gefið út í ágúst á þessu ári á sambærilegri kröfu.

Ávöxtunarkrafa skuldabréfa sem gefin eru út af viðskiptabönkunum þremur lækkuðu í mörgum tilfellum. Til að mynda lækkaði krafa á verðtryggð skuldabréf Arion banka sem eru á gjalddaga 2029 um 13 punkta. Krafan stendur nú í 0,87% en lægst var krafan í ágúst og september á þessu ári þegar hún fór í um 0,1%.