Fyrir lágu áætlanir um töluverða hækkun á námslánum. Þegar krafa stjórnvalda kom fram um 1,5% aðhald ráðuneyta varð að bregðast við því, að sögn Illuga Gunnarssonar menntamálaráðherra. Hann segir handtökin verið snögg og krafa um námsárangur verið hækkaður úr 60% til að fá námslán í 75%.

„Ég geri mér grein fyrir því að þetta sé óþægilegt og erfitt,“ sagði Illugi á Alþingi í dag í óundirbúnum fyrirspurnartíma. Hann benti á að krafan um 75% námsárangur sé sú sama og gerð sé á öllum Norðurlöndunum. Þá hafi hún sömuleiðis verið sú sama þar til árið 2007. Hann benti sömuleiðis á að ekki hafi verið búið að gera breytingar á úthlutunarreglum eins og stjórn Lánasjóðs íslenskra námsmanna hafi verið að leggja upp með.

„Nú myndast svigrúm til að hækka grunnframfærsluna um 3%. Það þýðir að allir þeir sem ná námsarangri fá hærri námslán,“ sagði Illugi.